144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er komið í hnút og við þurfum með einhverjum hætti að finna lausn á því. Ég er þeirrar skoðunar að hún sé til. Ég tel að það væri, miðað við mál þingmanna hér, hægt að afgreiða þá tillögu sem upphaflega kom fram, sem var með eina virkjun, og menn greiði bara atkvæði um það, þá kemur í ljós hvort það er meiri hluti fyrir henni eða ekki.

Síðan hefur komið fram að það sem mestu skiptir fyrir þá sem vilja bíða er að laxarökin svokölluðu séu krufin til mergjar. Þau varða þrjár virkjanir sem eru í neðri hluta Þjórsár, og ég tel sjálfur að ekki sé hægt að rannsaka neitt frekar þar. Það sem þarf hins vegar að gera er að fá einhverja erlenda stofnun eða virtan, hlutlausan fræðimann til þess að fara í gegnum þau gögn sem eru til um seiðafleytur í útlöndum og menn komist þá að niðurstöðu um hvort það sé líklegt að það gagnist eða ekki. Þegar niðurstaðan af því liggur fyrir geta menn tekið þetta til umræðu hér aftur og eftir atvikum samþykkt eða fellt. Þar með er þetta mál leyst. Þetta er ekki flóknara en það. Er ekki hv. þingmaður (Forseti hringir.) sammála mér um að það væri einfaldast að gera í þessari stöðu?