144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:20]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hv. þingmanns. Þetta var auðvitað upphafið að ósættinu og síðan breytingin sem varð á rammaáætlun 2, það var auðvitað mjög vont mál líka.

Ég tek auðvitað undir þetta með þriggja fasa rafmagn í Skaftárhrepp, það er ekki boðlegt árið 2015 að það sé ekki komið, það hefði átt að vera komið fyrir löngu og tengist ekki neinum virkjunum þannig séð. Til að gera lífvænlegra í sveitinni þá hefði þetta átt að vera löngu komið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um Hagavatnsvirkjun, þó að það sé búið að ákveða að draga Hagavatnsvirkjun út. Það kom augljóslega fram að sú virkjun átti að þjónusta ylræktarbændur og þar átti að vera jarðstrengur frá virkjuninni þannig að þar átti að vera bæði minnkandi sandfok og tengja beint við starfsemi í sveitinni. Var þá ekki mjög mikilvægt að fara í þá framkvæmd? Það væri reyndar líka einkaframkvæmd og hefði komið fólkinu í sveitinni einkanlega vel og þeir í Bláskógabyggð og sveitarfélögunum þar í kring óskuðu (Forseti hringir.) sérstaklega eftir þeirri virkjun. Hefði ekki verið nær að fara að vilja þeirra þá?