144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, þótt að við séum auðvitað ekki sammála í öllum atriðum, alls ekki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem vitnaði hér til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og breytt vinnubrögð, um bætt vinnubrögð því hv. þingmaður er fulltrúi flokks sem bauð fram undir þeim formerkjum að breyta hér vinnubrögðum, vera jákvæð, reyna að koma góðum málum fram og ekki að taka þátt í gamaldags pólitík.

Í rannsóknarskýrslunni var svolítið fjallað um þetta og við sem sátum í þingmannanefndinni sem fjölluðum um þá skýrslu lögðum fram ályktun þar sem m.a. er sagt að íslensk stjórnmál hafi ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við þær staðreyndir að Alþingi eigi að vera vettvangur umræðu sem taki mið af almannahagsmunum, góð stjórnmálaumræða náist fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar.

Mér finnst mjög skorta á þetta í umræðunni um þetta mál. Menn eru í fundarstjórn forseta í staðinn fyrir að vera í efnislegri umræðu um málið og takast á með rökum, eins og við í þingmannanefndinni vorum að mælast til þess að fólk gerði.