144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:26]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það getur verið. En nú er árið 2015 og það er ný ríkisstjórn. Hafi fyrri ríkisstjórn böðlað þessu í gegn með handafli og pólitískum hrossakaupum eins og oft er talað um þá finnst mér það ekki réttlæta að þessi ríkisstjórn geri það. Hún hefði þá átt að taka á þessu og gera þetta allt öðruvísi og virða það ferli sem var búið að koma í gegn, hvort sem það var gert með einhverjum hrossakaupum eða einhverju öðru, þetta var samþykkt í þinginu, þetta eru lög, farið þið eftir þeim og verið góð fyrirmynd. Þið voruð kosin til þess og við vorum öll kosin til þess að vera góðar fyrirmyndir og vinna að málum í sameiningu. Það að setja þessa þrjá virkjunarkosti inn — það var alveg vitað að það yrði allt vitlaust hérna, maður bara fann það. Þið hefðuð alveg getað komist hjá því og þá getað sagt stolt: Við erum ekki að vinna eins og síðasta ríkisstjórn gerði.