144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:28]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta og málefnalega ræðu. Ég þakka fyrir að við fáum að tala um þetta mál undir réttum lið.

Ég reyndar er ekki sammála honum um að það sé skelfilegt ástand í þjóðfélaginu. Ég held að við ættum ekki að vera með þessar úrtölur, ég held að við ættum frekar að vera með uppbyggilega umræðu.

Ég geri ekki lítið úr þessum bréfum frá bændum á svæðinu, heimamönnum, ég geri mér grein fyrir því að það eru einhverjar fórnir í þessu sambandi. En virkjunarkostirnir í neðri hluta Þjórsár fengu fullt hús stiga hjá öllum faghópunum í rammaáætlun 2 þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að við eigum að fara að leggja persónulegt mat á þessi mál eftir því hvað heimamenn segja eða hvort við eigum (Forseti hringir.) að miða við og taka mark á faghópum sem búnir eru að leggja mikla vinnu í undirbúningsvinnu sína.