144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mig langar á þessum tímapunkti að fara þess á leit við virðulegan forseta að kalla þingflokksformenn saman á fund, því að þetta umræðuefni er þeirrar gerðar að það grefur sig dýpra, ágreiningurinn, eftir því sem umræðunni vindur fram. Það er mjög mikilvægt vegna þess hversu brýn mál eru þarna undir að við gætum vel að því að þetta fari ekki í dýpri skotgrafir en þegar er orðið og að þingflokksformenn hittist og við metum stöðuna og gerum það áður en lengra er haldið í umræðunni. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Það lýsir sér vel í þeim ræðum sem verið er að halda. Það er í raun enn þá grundvallarágreiningur um leikreglurnar, grundvallarágreiningur um lagaumbúnaðinn o.s.frv. Þetta er umræða sem við þurfum að ná að stilla af með einhverju móti, vegna þess að hún leiðir okkur ekki mjög mikið eins og henni er haldið fram núna.