144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Svo gott sem allir á mælendaskrá eru úr minni hlutanum, sem eru á móti tillögunni, en ég tek eftir því skýra mynstri að þegar þingmenn meiri hlutans stíga í pontu og lýsa sjónarmiðum sínum þá fyrst á sér stað einhver málefnaleg efnisleg umræða um málið sjálft. Hv. þingmenn meiri hlutans eru gjarnir á að koma hingað og kvarta undan því að undir liðnum um fundarstjórn forseta sé efnisleg umræða, sem ég reyndar þvertek fyrir í mínu tilfelli og flestra annarra, nema þegar virðulegur forseti hefur minnt fólk á að halda sig við fundarstjórn forseta. En alla vega, það er mikið gagn að því fyrir málið sjálft að hv. þingmenn meiri hlutans taki til máls vegna þess að úr því verða skoðanaskipti, sem við erum komin hingað á hið háa Alþingi til að eiga. Ég hvet því hv. þingmenn og minni þá einnig á að í hvert sinn sem beðið hefur verið um það hafa þingmenn minni hlutans vikið af mælendaskrá fyrir þingmönnum meiri hlutans. Það er vegna þess að ef þetta á að vera á dagskrá þá skulum við ræða það saman við hvort annað en ekki bara á meðal skoðanabræðra okkar og -systra.