144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Rétt á undan bentu tveir ræðumenn, annars vegar hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og hins vegar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, á það sem ég vil eiginlega kalla dónaskap stjórnarmeirihlutans við þá umræðu sem hér fer fram, sem er t.d. fólginn í því að þingmenn stjórnarmeirihlutans láta ekki svo lítið að vera viðstaddir þegar þingmenn minni hlutans halda ræður og þess vegna verður ekkert samtal og engin rökræða nema þegar einhver úr stjórnarmeirihlutanum heldur ræður.

Svo er það líka það að enginn ráðherra er viðstaddur þessar umræður. Við vitum öll að hæstv. umhverfisráðherra er löglega forfölluð en það hlýtur einhver að geta komið í hennar stað, bara til að sýna okkur þó (Forseti hringir.) þá virðingu að hlusta á það sem fólk hefur fram að færa. Þá mundi kannski líka renna upp fyrir þeim hversu brýnt er að höggva á þann hnút sem er á þingstörfunum.