144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil minna á að það er margbúið að óska eftir viðveru hæstv. forsætisráðherra við þessa umræðu. Við höfum áhuga á því að ræða við hann meðal annars þar sem hann hefur tengt kjaradeilur málinu. Ég held að það væri líka ástæða til að ræða aðeins við forsætisráðherra um samfélagsástandið, sem er mjög þungt og miklu þyngra en það ætti að vera á Íslandi í dag á þessum árstíma og í ljósi þess að ýmislegt hefur þó verið að leggjast með okkur undanfarin ár. Engu að síður er það svo að það leynist ekki nokkrum manni sem fer út á meðal almennings að það er þungt í þjóðinni.

Þegar við bætast fréttir af framgöngu hæstv. menntamálaráðherra og ólögmætu einkavæðingarbrölti hans með Iðnskólann í Hafnarfirði og myrkraverkum, skemmdarverkum vil ég segja gagnvart námi á framhaldsskólastigi á landsbyggðinni þá eru ærin tilefni til að ræða aðra hluti en þetta, sem er í algeru tilgangsleysi enn þá haft á dagskrá og látið spilla og fordjarfa öll störf þingsins. Það er að verða alveg átakanlegt að meiri hlutinn skuli ekki ná áttum (Forseti hringir.) og sjá sóma sinn í því að hörfa af hólmi með þetta mál, því að það er löngu ljóst að þetta stríð vinnur meiri hlutinn ekki. Hann hefur engan málstað til þess og heldur ekki aðstöðu, því að við munum nýta rétt okkar til þess að sjá um að þessi óhæfa verði ekki.