144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki lengja þessa umræðu óþarflega en ég vildi koma hingað upp vegna þeirrar ábendingar sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom með að það er orðið dagljóst eftir atburði dagsins að umræðan sem hún hefur beðið um við hæstv. menntamálaráðherra þarf auðvitað að verða lengri á morgun og fara þarf yfir það mál miklu betur, ég held að við séum að tala um 3–4 tíma umræðu. Á Alþingi Íslendinga þarf að eiga sér stað umræða um menntastefnuna. Við höfum aldrei fengið efnislega umræðu við hæstv. ráðherra með einhverjum alvarlegum hætti um til dæmis ákvörðun hans frá því fyrir jól um að loka framhaldsskólunum fyrir fólki yfir 25 ára aldri. Það er þegar farið að hafa alvarleg áhrif. Það er ástæðan fyrir því að hann hefur núna tækifæri til að reka rýtinginn í litlu skólana úti á landi, vegna þess að hann er búinn að kippa undan þeim rekstrargrundvellinum með því að meina þeim að fá greitt fyrir nemendur yfir 25 ára aldri. Ekki er borgað fyrir fjórðung af nemendunum. Með þessu er komið í veg fyrir að tækifærin séu nýtt á landsbyggðinni. (Forseti hringir.) Um þetta hefur aldrei fengist umræða hér. Ég held að sú umræða þurfi að verða miklu lengri og forseti þarf að gera strax ráðstafanir til að rýma hér dagskrána á morgun.