144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:54]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hvernig væru störfin í þinginu ef alltaf væru þessi uppþot ef hv. þingmenn væru ekki sáttir við einhverjar tillögur?

Við deilum um lagatúlkun og mig langar að vitna aðeins í túlkun frá skrifstofu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Ítreka ber að lögin eru ekki skýr um þetta og e.t.v. gæti verið ástæða til að kveða skýrar á um þetta í lagatextanum. Halda ber því til haga að þar sem í greinargerð er vísað til að „áður en Alþingi fjallar um áætlunina liggi fyrir faglegt mat á virkjunarkostum og landsvæðum …““

„… að teknu tilliti til allra þeirra upplýsinga sem liggja fyrir úr fyrsta, öðrum og þriðja áfanga rammaáætlunar, og á grundvelli þess leggja fram rökstudda breytingu á röðun þessara virkjunarkosta ef niðurstaða Alþingis verður á þá leið að lokinni könnun málsgagna.“

Við deilum hér um óskýr lög, við deilum ekki um það. (Forseti hringir.) En eigum við ekki að halda umræðunni áfram? Og þegar við höfum lokið þessu eigum við þá kannski ekki að fara í að skoða þessi lög og kannski gera þau skýrari þannig að þessar deilur verði ekki næst?