144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef stórar efasemdir um að það bæti eitthvað þessa umræðu að fá hæstv. forsætisráðherra hingað til hennar. Ég tel að við séum í miklu betri færum með að finna lausn á þessum hnút ein og sér en að fá hann. Hæstv. forsætisráðherra hefur þann leiða sið að hann getur aldrei ávarpað þingið án þess að missa sig í það að löðrunga mann og annan og hefur aldrei stillt hér til friðar. Ég tel að miklu betra sé að við reynum með rökum smám saman að sannfæra og sýna mönnum fram á að það sem hér er að gerast er á svig við lögin og þess vegna er ég algerlega ósammála hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni um að halda umræðunni áfram. Við eigum að fresta henni og reyna að finna lausn á málinu og síðan að taka til óspilltra málanna við að ræða það sem þarf að ræða, sem eru vinnudeilurnar, upplausnin í samfélaginu og verkföllin sem eru fram undan. (Forseti hringir.) Það á að vera hlutverk Alþingis á válegum tímum sem þessum.