144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hafði svo sem ekki velt þessum skólamálum sérstaklega fyrir mér og hef í rauninni ekki fengið annað en stutta kynningu í gær. Ég hef ekki velt því fyrir mér hvort Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum verði hluti af skólanum á Selfossi og hafði auðvitað ekki séð það fyrir mér. Ég hafði aftur á móti séð fyrir mér að Vestmannaeyjar, þar með skólakerfið, heilbrigðisþjónustan, gætu verið mjög öflug og góð staðsetning fyrir marga Sunnlendinga sem vilja sækja til Eyja, eins og íbúa á Hellu, Hvolsvelli og Vík sem vilja sækja ýmsa þjónustu þangað. Með bættum samgöngum væri það að sjálfsögðu kostur. Ég hafði ekki séð fyrir mér að sá skóli yrði sameinaður einhverjum öðrum skóla. Það þarf að fara yfir áður en ég … (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að gefa yfirlýsingu í þessum stól, spurningin kemur óvænt, en ég hafði ekki séð þetta þannig fyrir mér. Þrátt fyrir að ég sé almennt hlynntur ýmsum sameiningum held ég að við þurfum öll að fara mjög varlega í þær. Ég velti þá fyrir mér: Af hverju eru skólarnir í höfuðborginni, sem eru hvor sínum megin við götuna, ekki sameinaðir?