144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um það mikilvæga mál sem er til meðferðar hér á Alþingi. Þetta er fyrsta ræðan mín um málið og ég vil þess vegna reyna að fara yfir það í heild sinni.

Í fyrsta lagi skiptir máli að undirstrika að stjórnarmeirihlutinn hafði það í hendi sér að tryggja framgang samstöðu um rammaáætlun og um nýjan virkjunarkost, Hvammsvirkjun, sem fólst í hinni upphaflegu tillögu hæstv. umhverfisráðherra. Það er athyglisvert að heyra málafylgju hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, fyrir tillögunni í haust, þegar hann rökstuddi af hverju einungis væri gerð tillaga um Hvammsvirkjun og þegar hann mælti gegn fyrstu hugmyndum meiri hluta atvinnuveganefndar um að grauta fleiri virkjunarkostum inn í málið. Þá útskýrði þáverandi umhverfisráðherra svo vel hversu miklu það skipti að fara fram með málið í réttu formi og réttum framgangi og að gæta þess að grípa ekki fram fyrir hendur verkefnisstjórnarinnar.

Í umræðunni höfum við í stjórnarandstöðunni bent á þá staðreynd að ákvörðunin stenst ekki lagagrunninn um rammaáætlun. Þegar við höfum bent á það höfum við oft heyrt, frá meiri hluta atvinnuveganefndar og forustumönnum ríkisstjórnarinnar, tilvísanir til þess hvernig mál gengu fram á síðasta kjörtímabili. Þar er ólíku saman að jafna. Annars vegar var þar um að ræða að halda lengur í biðflokki nokkrum virkjunarkostum en ekki flytja þá yfir í nýtingarflokk. Hér er verið að tala um að flytja virkjunarkosti úr biðflokki frá verkefnisstjórn, sem er að vinna með rannsóknir, yfir í nýtingarflokk. Það þýðir að þeir verða þá ekki rannsakaðir af verkefnisstjórninni. Þar með er um óafturkræfa aðgerð að ræða.

Í annan stað vil ég rifja upp að í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar er að finna afskaplega góða málsvörn fyrir síðustu ríkisstjórn og það verklag sem hún viðhafði að þessu leyti. Á bls. 2 í álitinu segir meiri hluti nefndarinnar — ég ítreka að það eru þeir ágætu félagar, þingmenn stjórnarmeirihlutans í málinu. Þar segir:

„Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögunum voru drög að gildandi tillögu til þingsályktunar send til umsagnar sumarið 2011 af hálfu þáverandi iðnaðarráðherra.“

Það var með öðrum orðum sérstakt bráðabirgðaákvæði í lögunum um rammaáætlun sem gerði ráð fyrir að drög að fyrstu þingsályktunartillögunni yrðu send til umsagnar og að tekið yrði tillit til þeirra umsagna. Ég held síðan áfram að vitna í hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Ásmund Friðriksson og Pál Jóhann Pálsson:

„Með hliðsjón af athugasemdum sem bárust í umsagnarferlinu voru gerðar nokkrar breytingar á drögunum áður en tillaga til þingsályktunar var lögð fyrir þingið.“

Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu ferli betur en þeir hv. félagar gera. Það var sérstakur lagarammi, bráðabirgðaákvæði, um þetta fyrsta rammaáætlunarferli. Ákveðið var að fella út virkjunarkosti vegna þess að þeir féllu utan gildissviðs laga um verndar- og orkunýtingaráætlun og með þá kosti sem fluttir voru úr nýtingarflokki í biðflokk var farið að fullu og öllu að lagarammanum eins og hann var.

Í því máli sem hér um ræðir er gripið fram fyrir hendur verkefnisstjórnarinnar. Óþolinmæði meiri hluta atvinnuveganefndar er slík. Hún er ekki tilbúin að ganga þá leið sem hæstv. umhverfisráðherra, bæði sá fyrri og sá sem nú situr, hafa markað, að gefa verkefnisstjórninni færi á að vinna vinnuna sína. Það eru ýmsar leiðir til að greiða fyrir því. Ef afgreiðsla þessa máls hefði til dæmis tekist hratt og örugglega hefðu það verið ákveðin skilaboð til verkefnisstjórnarinnar sem og ef fullnægjandi fjárveitingar hefðu verið settar í rannsóknir. Það hefði líka greitt fyrir málum.

Ég er hér með útprentun af vef verkefnisstjórnar þar sem er að sjá tímaáætlun síðari hluta 3. áfanga. Verkefnisstjórn gerir að óbreyttu ráð fyrir því að skila 27 kostum, greindum, til ráðherra 1. september 2016, eftir ár héðan í frá. Það er nú ekki meira. Eftir atvikum væri hægt að flýta því með því að auka fjárveitingar til verkefnisstjórnar ef menn telja þetta ekki nægt, en það er nú ekki nema ár héðan í frá og þetta getur þá verið fyrsta mál ríkisstjórnar á nýju hausti.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að verkefnisstjórn ljúki við vinnslu mála og niðurstaðan úr meðförum þingsályktunartillögunnar á síðasta kjörtímabili var að fella tiltekna kosti í biðflokk og fela verkefnisstjórn frekari umfjöllun þar um, ásamt og með öðrum þeim kostum sem eru í biðflokki. Þar eru þeir nú. Það kemur skýrt fram í umsögn Skipulagsstofnunar að ekki eru efnislegar forsendur fyrir því að taka málið, með þeim hætti sem gert er ráð fyrir hér af hálfu meiri hluta atvinnuveganefndar, úr höndum verkefnisstjórnarinnar. Samband íslenskra sveitarfélaga gerir alvarlegar athugasemdir við það. Það telur mjög mikilvægt að verkefnisstjórnin fái tækifæri til að ljúka vinnu sinni. Það sama segir Alþýðusamband Íslands, þó að hæstv. forsætisráðherra og fleiri þingmenn úr stjórnarliðinu reyni að ljúga einhverri annarri afstöðu upp á Alþýðusamband Íslands. Þvert á móti segir Alþýðusambandið mjög skýrt í umsögn sinni að það standi vörð um að verkefnisstjórnin fái að vinna þetta verk og skila því af sér.

Skýrast má þó sjá sönnun þess að ekki er farið með réttum lagalegum hætti í málinu í umsögn í minnisblaði umhverfis- og auðlindaráðuneytis til atvinnuveganefndar frá 27. nóvember 2014. Þar segir sérstaklega, með leyfi forseta:

„Þar sem verkefnisstjórn fjallaði ekki efnislega um fimm tilgreinda virkjunarkosti“ — og nú sting ég inn Skrokköldu — „eins og lög nr. 48/2011 gera ráð fyrir, séu umræddir virkjunarkostir enn þá í umfjöllun hjá verkefnisstjórn að mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Verkefnisstjórnin hefur ekki skilað tillögu um flokkun þessara kosta til ráðherra og þingsályktunartillagan sem nú liggur fyrir Alþingi tekur ekki til þeirra kosta. Það er því mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lög nr. 48/2011 geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað þá varðar.“

Skýrar er varla hægt að komast að orði af ráðuneyti um að framganga meiri hluta atvinnuveganefndar sé ekki í samræmi við lög.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson sagði hér í morgun að svokallaðir sérfræðingar vildu komast að niðurstöðu um einstaka virkjunarkosti. Þetta er nákvæmlega orðfærið og nálgunin sem við erum að reyna að komast út úr með rammaáætlun. Það er alveg öruggt að ef við höfum efasemdir um sérfræðingana sem falið er að meta virkjunarkosti þá er enn frekar ástæða til að efast um sérfræðikunnáttu þingmanna til að flokka virkjunarkosti. Og hv. þm. Jón Gunnarsson og aðrir félagar hans í meiri hluta atvinnuveganefndar eru svo sannarlega „svokallaðir sérfræðingar“. Við getum ekki leyft þingmönnum, við meðferð þingsályktunartillagna, að setja sig í hlutverk sem verkefnisstjórn er falið með lögum, samkvæmt gildandi lögum í landinu. Það verður að vera þannig að verkefnisstjórnin fái að sinna sínu lögbundna hlutverki og svokallaðir sérfræðingar úr hópi þingmanna geta ekki komið þar í stað.

Hann vekur líka athygli sá fruntaskapur sem meiri hluti atvinnuveganefndar sýnir ráðherranum í málinu. Nú var búið að ganga gegnum umræðu hér í haust um þetta mál þegar hugmyndir voru um fjölgun virkjunarkosta í átta. Við vorum búin að eiga um þetta rökræðu hér í þingsal og hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafði tekið af skarið um að það væri bara einn kostur sem efnisleg rök væru til að afgreiða. Það er mjög sérstakt að þegar síðan kemur nýr umhverfisráðherra skuli menn ákveða að setja henni stólinn fyrir dyrnar og niðurlægja hana á þann hátt sem meiri hluti atvinnuveganefndar hefur gert. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvers konar skilaboð eru þetta til hæstv. umhverfisráðherra og hvaða virðing er umhverfisráðherra sýnd með því að meiri hluti í atvinnuveganefnd setji sig gegn þeirri tillögu sem hún ber stjórnskipulega ábyrgð á og sem hún hefur algerlega lýst hvernig hún mundi vilja sjá afgreidda í gegnum þingið? Ég held satt að segja að það sé leitun í þingsögunni að annarri eins niðurlægjandi framgöngu gagnvart ráðherra eins og meiri hlutanum hefur þótt sér sæma að sýna hæstv. umhverfisráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur. Mér finnst þetta satt að segja alveg til skammar. Ég hlýt að spyrja þingmenn Framsóknarflokksins hvernig þeir geti leyft því að viðgangast að komið sé fram við þingmann og ráðherra úr þeirra hópi með þessum hætti, sérstaklega vil ég nefna kvenkynsþingmenn Framsóknarflokksins. Er það eðlilegt að komið sé fram við konu í ráðherrahópi með þessum hætti, að henni sé stillt upp við vegg af einhverjum fruntakörlum og eigi bara að sætta sig við það sem að henni er rétt og að gengið sé beint gegn þeim línum sem hún leggur um afgreiðslu þessa máls sem eru á hennar stjórnskipulegu ábyrgð hér á Alþingi?

Ég hef verið ráðherra. Ég veit að þingið hefur forræði mála í höndum eftir að ráðherra hefur lagt það fram. En það er líka þannig, þegar meirihlutastjórn er við völd, að ef þingið kollvarpar uppleggi ráðherra þá felast í því skýr skilaboð til ráðherrans og mér finnst hæstv. umhverfisráðherra Sigrún Magnúsdóttir ekki hafa unnið til þess að fá þessar trakteringar frá félögum sínum svo að það sé sagt hér hreint út.

Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sagði hér áðan að það þyrfti að gera lögin skýrari, það væri ástæða til þess. Hvergi er að finna í lögunum eins og þau standa nokkra glufu til að draga þá ályktun að þingnefnd geti komið í staðinn fyrir verkefnisstjórn. Ef menn hafa raunverulega áhuga á því að vanda til verka þá er það það fyrsta sem löggjafinn á að gera að gæta þess að fara ekki við meðferð málsins inn á grátt svæði gagnvart lögum. Ég er búinn að lesa hér upp álit umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sérstaklega um einn kost sem enn er til meðferðar í þessari tillögu, Skrokköldu, þar sem ráðuneytið segir beinlínis að það standist ekki lögin. Og af hverju þarf þá að breyta lögunum til að taka algerlega af allan vafa um að menn megi ekki brjóta þau þegar fyrir liggur að þeir eru að brjóta þau? Af hverju sýna þingmenn stjórnarmeirihlutans í atvinnuveganefnd ekki bara þann manndóm að draga tillöguna til baka og standa vörð um hina upphaflegu tillögu? Hún mundi fá aukinn meiri hluta í þingsal og þingmenn stjórnarmeirihlutans gætu þá barið sér á brjóst fyrir að hafa tryggt framgang tillögu um virkjun í sátt við þing og þjóð. Er ekki til einhvers unnið að ná þeim árangri, spyr ég.

Það er gríðarlega mikilvægt að hafa löglegt ferli í þessu máli, lagalega rétt ferli. Það er ekki bara mikilvægt til að tryggja samfélagssáttina, sem ég hef svo oft rætt um, binda enda á deilur, finna góða leið til að ljúka þessum ágreiningi af því að öll viljum við bæði hafa góða náttúru, njóta hennar og hafa rafmagn. Í grunninn snýst þessi ágreiningur um það hvar við ætlum að setja markalínurnar þarna á milli. Ég held að enginn vilji virkja allt og ég held að enginn vilji ekkert virkja. Og enginn vill friða allt og enginn vill að ekkert verði friðað. Við hljótum, ef við mundum vilja standa vörð um þetta ferli, að geta fundið þennan skurðpunkt saman í friði og sátt. Til þess var kerfið búið til og þess vegna er það mikilvægt til að setja niður deilur í samfélaginu. En það er líka mikilvægt til að tryggja umgjörð utan um orkunýtingu okkar.

Nú ætla ég að koma að stærsta misskilningnum og stærsta gönuhlaupinu í málflutningi meiri hluta atvinnuveganefndar. Með því að fruntast svona fram og brjóta lögin eins og meiri hlutinn er að gera blasir sú hætta við að ekki bara taki hér við áralöng átök og kærumál og dómsmál um réttmæti þessara virkjunarkosta heldur líka sú staðreynd að jafnvel þó að þessar virkjanir yrðu reistar fengjum við ekki gott verð fyrir orkuna úr þeim. Erlend fyrirtæki, sem vilja kaupa þessa orku, vilja nefnilega að tryggt sé að hennar sé aflað með réttum hætti og ekki sé gengið á náttúruna. Alveg eins og við höfum upplifað, þegar menn ætluðu sér skemmri skírn með fiskveiðiauðlindina, juku kvótann þvert á fiskveiðiráðgjöfina — hvað gerðist þá? Fiskurinn féll í verði því að það vildi enginn kaupa hann af því að ekki var tryggt að hans hefði verið aflað í samræmi við réttar leikreglur. Það sama mun gerast með orkuna úr þessum virkjunum. Hún verður afsláttarorka vegna þess að kaupendurnir munu ekki geta tryggt það, munu ekki geta fengið tryggingu fyrir því, að hún flokkist sem græn orka vegna þess að það var í krafti skemmri skírnar og þess að gengið var á svig við réttar leikreglur sem byggingin var leyfð. Það mun þá þýða að kaupendurnir munu ekki geta selt afurðir sínar þannig að þær hafi verið unnar með hreinni grænni orku. Þetta er stóra málið sem við stöndum frammi fyrir. Tillaga atvinnuveganefndar felst í að slátra gullgæsinni, að ganga fram með þeim hætti að það samrýmist ekki lagareglum um virkjanir og tefla því þar með í tvísýnu að við getum selt þessa orku sem orku sem aflað hefur verið með grænum og sjálfbærum hætti.

Ég bið meiri hluta Alþingis, ég bið þingmenn stjórnarflokkanna að hugsa nú: Er þetta gönuhlaup þess virði þegar við horfum á þessa tímaáætlun? 1. september 2016 mun verkefnisstjórn afhenda ráðherra tillögu um 27 kosti og það er enginn orkuskortur í landinu. Það er ekki eitt verkefni sem ekki er hægt að skrifa undir samninga um vegna þess að orku vanti. Ef Hvammsvirkjun færi hér í gegn, með atkvæðum ríflegs meiri hluta þings á morgun, væri verið að senda skýr skilaboð ef því fylgdi til dæmis aukafjárveiting til verkefnisstjórnar til að tryggja að hægt væri að ganga frá málum á réttum tíma, og væru það enn skýrari skilaboð um að menn væru búnir að ákveða að halda áfram að afla grænnar orku á sjálfbærum forsendum. Er það ekki betri leið en þessi ósköp? Hvernig geta menn réttlætt það að fara áratugi aftur í tímann í einhverjum fáránlegum jarðýtu- og gröfuleik? Róta og moka án nokkurrar fyrirhyggju þegar í boði er að fara að réttum leikreglum og tryggja hámarksverð fyrir orkuna.