144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, við eigum ekki að taka þessa áhættu að órannsökuðu máli. Nú er ég bæði náttúruverndarsinni og orkunýtingarsinni og vil að við nýtum orku en í sátt við landið. Ég ætla að lýsa því að mér hefur sjaldan liðið og aldrei liðið jafn vel með að nálgast upplýsingar um einhvern virkjunarkost og um Hvammsvirkjun eftir að honum er skilað úr höndum verkefnisstjórnar. Maður veit að búið er að biðja verkefnisstjórn um að fara aftur yfir málið og hún kemur með niðurstöðu þar sem hún færir ítarleg rök fyrir kostinum. Það er þess vegna sem ég og við í Samfylkingunni treystum okkur til að styðja þann kost í nýtingarflokk. En það er nákvæmlega af sömu ástæðu sem við erum ekki tilbúin að svo stöddu að segja það sama um Holtavirkjun, hvað þá Urriðafoss þar sem (Forseti hringir.) ýmsar stórar efasemdir eru enn þá uppi, jafnt að því er varðar náttúruverndargildi fossins sem og laxastofninn.