144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og erum við nú á sama máli í þessu. Það sem við erum auðvitað að gagnrýna er að meiri hluti nefndar skuli taka fram fyrir hendurnar á verkefnisstjórn og ákveða að setja virkjunarkosti í nýtingarflokk sem verkefnisstjórn er ekki búin að fjalla um, þ.e. hún hefur ekki klárað vinnuna. Meiri hlutinn segir réttilega að sumir af þeim virkjunarkostum hafi fengið umfjöllun, það liggi fyrir gögn um þá, en þá veltir maður fyrir sér: Er nóg að verkefnisstjórnin hafi að einhverju leyti fjallað um virkjunarkost og þá getur Alþingi einhvern veginn gripið inn í, meiri hluti nefndarinnar? Er þá nóg að ferli hafi verið í gangi í tvo mánuði, átta mánuði, eða hver á að ákveða það? Er ekki eðlilegast að verkefnisstjórnin klári vinnuna sína? Maður skilur ekki alveg hvað hastar (Forseti hringir.) núna. Veit hv. þingmaður hvort það er skortur á fjármagni, eða hvaða (Forseti hringir.) óþolinmæði er þetta? Af hverju getur verkefnisstjórn (Forseti hringir.) ekki fengið að klára vinnuna?