144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á í sjálfu sér engin svör við því. Ég sýndi þessa skyggnu áðan sem sýnir hversu stutt er í að verkefnisstjórn á að komast að niðurstöðu. Mér finnst það líka sérkennilegt í ljósi umræðunnar sem við áttum hér fyrir áramót þegar fyrst var rætt um átta virkjunarkosti.

Ég verð að segja alveg eins og er, eins og ég rakti áðan, maður hlýtur að spyrja sig hvort þetta sé fruntagangur í garð nýs umhverfisráðherra og hvort þetta endurspegli einhverja flokkadrætti í stjórnarliðinu. Það eru engin efnisleg rök fyrir málinu þegar í hendi er að verkefnisstjórn mun að óbreyttu skila niðurstöðu um 27 kosti eftir ár, þá höfum við fulla tryggingu fyrir því að farið sé að öllum réttum leikreglum, þá er búið að róa fyrir hverja vík og við getum verið fullkomlega viss um það að við getum selt þessa orku sem græna orku á hámarksverði. Ég skil ekki hvers vegna (Forseti hringir.) menn vilja tefla því í tvísýnu.