144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða mikið um rammaáætlun, fæ tækifæri til að vera næstur í ræðustól hvað það varðar. Mig langar samt að blanda mér aðeins í þá umræðu sem hefur verið hér um hvað er á dagskrá þingsins. Það hefur komið fram að hér á að vera sérstök umræða á morgun um menntamálin sem ég fagna mjög, en þá eingöngu út frá sveigjanleikanum og hvernig menn hafa verið að stytta nám til lokaprófs í framhaldsskólum. Sjálfur á ég inni beiðni um sérstaka umræðu um málið sem hefur hvað mest verið rætt hér, sem er þegar menn ákváðu að leggja niður Iðnskólann í Hafnarfirði og færa hann undir einkaskólann Tækniskólann. Ég held að það sé mikilvægt að þeirri umræðu sé haldið, ef þessu tvennu er ekki slegið saman, en það er auðvitað fleira sem þyrfti að ræða. Við þyrftum kannski að taka hálftíma á dag í næstu viku að ræða menntamálin, því Lánasjóður íslenskra námsmanna þyrfti að komast hér í umræðu vegna ábyrgðarmannakerfis og hertrar innheimtu og líka vegna niðurskurðar á lánum til námsmanna erlendis. Við erum ekki að tala bara um (Forseti hringir.) norðausturhornið í framhaldsskólanum, við erum líka að tala um Vesturlandið, skólameistararáðningar og fleira. Það er brýnt að við fáum (Forseti hringir.) tækifæri til að ræða þetta. En ég ætla ekki að skorast undan að taka mína ræðu um rammaáætlun.