144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er kannski rétt að halda því til haga að ein af ástæðum þess að svo mikill ágreiningur er um fundarstjórn forseta og þetta verklag meiri hlutans allt er sú að það sem hér er til umræðu er þingsályktunartillaga, þ.e. til síðari umræðu. Tillagan er sennilega ekki í samræmi við lög en ef hún væri það þá er framgangsmátinn sá að ólíkt því sem oft hefur verið í málþófi í þinginu þá gengur málið ekki til forseta lýðveldisins fái það samþykki þar sem fólk getur síðan skorað á forsetann og fengið hann til að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Þingsályktun verður ekki skotið til herra Ólafs Ragnars Grímssonar. Þingsályktun er endanleg ákvörðun og verður hvorki áfrýjað til forsetans né (Forseti hringir.) lögð í þjóðaratkvæði. Þess vegna er aðferðin sem hér er beitt svo ómerkileg.