144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að viðurkenna að mér finnst alltaf svolítið skondið þegar fólk er hér í ræðupúlti og talar við þá sem horfa á beina útsendingu frá Alþingi, en ég ætla samt að gera það núna.

Hv. þm. Helgi Hjörvar skýrði það ágætlega hérna áðan að við erum í síðari umræðu um þingsályktunartillögu og þess vegna verður fullnaðarafgreiðsla á henni þegar hún fer hérna út. En um hvað erum við að tala, virðulegi forseti? Við erum að tala um, að því er mér virðist, fjóra virkjunarkosti sem eiga að fara í nýtingarflokk sem heimilar óafturkræfar framkvæmdir á fjórum stöðum, kannski þrem, á landinu, dýrmætum stöðum sem faghópar hafa ekki skilað áliti um. Það er ekki búið að rannsaka svæðin til fulls. Hérna eru fimm þingmenn eða svo sem segja: Við höfum meira vit (Forseti hringir.) á þessu en hinir. Faghóparnir treysta sér ekki til að setja þetta í nýtingarflokk, (Forseti hringir.) en þingmennirnir treysta sér til þess. Þeir eru svo góðir alltaf.