144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvort enginn í stjórnarliðinu sé farinn að spá í þann kostnað sem hlýst af því fyrir ríkisstjórnina og meiri hlutann að halda þessari þráhyggju í tilgangsleysi áfram um breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég vísa þar ekki síst í aðstæður úti í þjóðfélaginu. Maður hefði nú haldið að ríkisstjórnin og meiri hlutinn mundi við þessar aðstæður frekar reyna að leggja inn til þess að hafa gott veður í þinginu varðandi þær ráðstafanir og aðgerðir sem hér kann að þurfa að grípa til, og vonandi ef einhvern tímann kemur niðurstaða í kjaraviðræðurnar varðandi þau stóru og mikilvægu frumvörp sem ríkisstjórnin boðar sjálf að hún eigi eftir að leggja fyrir þingið og biðja þá um gott veður fyrir að fá þau afgreidd, eins og afnám gjaldeyrishafta. Nei, hvað gerir meiri hlutinn? Hann heldur hér til streitu mesta ófriðarefni vetrarins (Forseti hringir.) sem er búið að vera frá fyrstu stund, allt frá nefndarvísan málsins sem var í (Forseti hringir.) ágreiningi og frá þeirri sprengju sem varð þegar fréttist af áformum formanns atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) um hina brjálæðislegu breytingartillögu. Staðan (Forseti hringir.) hér hefði ekki átt að koma neinum á óvart.