144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Maður hefur komið hingað síendurtekið upp til að ræða einfaldlega þá fásinnu, að mínu mati alla vega og fleiri hérna, að þessi breytingartillaga skuli vera á dagskrá. Í upphafi, þegar maður áttaði sig á því að hún yrði hérna á dagskrá, þá spurðum ég og fleiri spurninga sem að sjálfsögðu hefur ekki komið svar við, eins og hvort það væri virkilega í lagi að ræða svona yfirgripsmikið mál eins og fjórar nýjar virkjanir eða þrjár núna undir formerkjum breytingartillögu. Einu sinni var engin rammaáætlun. Kárahnjúkavirkjun var ákveðin með sérstökum lögum sem hétu lög um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Hefði verið í lagi þá í meðhöndlun (Forseti hringir.) þess lagafrumvarps að henda inn eins og fjórum öðrum virkjunarkostum milli 2. og 3. umr.? (Forseti hringir.) Hefði það verið í lagi? Er þetta spurning sem hæstv. forseti gæti (Forseti hringir.) svarað og aðrir.