144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það grátlega við þessa stöðu er að enginn úr þingliði stjórnarinnar hefur sýnt nokkurn vilja til þess að koma til einhvers konar samkomulags nema hv. þm. Ásmundur Friðriksson. Hér hafa verið lagðar fram hugmyndir um hvernig er hægt að leysa þetta mál. Það er hægt að gera það með því að afgreiða Hvammsvirkjun samkvæmt þeirri tillögu sem fram kom upphaflega og tveir hæstv. ráðherrar núverandi ríkisstjórnar telja farsælast að samþykkja. Það hefur komið fram það sem er órannsakað varðandi virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár er tiltölulega afmarkað vandamál. Það er hægt að leysa þetta allt saman.

Við skulum bara segja hlutina umbúðalaust eins og þeir eru. Þessu þingi er haldið í gíslingu af tveimur talibönum, hv. þm. Páli J. Pálssyni og hv. formanni atvinnuveganefndar. Þeir eru það öflugir í sínum flokki að fólkið, jafnvel þeirra eigið fólk, ræður ekki við þá. Það er þeim að kenna að þetta þing er komið í slíkt öngþveiti og (Forseti hringir.) kreppu. Þeir ættu að skammast til þess að fara að dæmi hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar (Forseti hringir.) og ræða við stjórnarandstöðuna. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)