144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141. Og takið þið nú eftir, þessi tillaga er lögð fram í þinginu af hæstv. umhverfisráðherra þáverandi, Sigurði Inga Jóhannssyni, og tillagan sem lögð er fram að vel athuguðu máli er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að eftirfarandi breyting verði á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141: Liðurinn „Suðurland, Þjórsá, 29 Hvammsvirkjun“ í a-lið 2. tölul. (Biðflokkur) færist í a-lið 1. tölul. (Orkunýtingarflokkur).“

Þetta er tillagan sem að vel athuguðu og vel undirbúnu máli er lögð fram af hæstv. ráðherra, fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni. Hún fer í gegnum venjulegt ferli og til ríkisstjórnarinnar. Hún fer til þingflokka stjórnarflokkanna, hún er samþykkt og afgreidd inn í þingið. Hún er byggð á umsögnum, m.a. frá atvinnuvegaráðuneytinu, frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þar sem menn fara yfir ferlið. Það er ágætlega gert í þessari tillögu, og niðurstaðan er sú að skynsamlegt sé að leggja fram þessa einu tillögu, um Hvammsvirkjun.

Ég ætla í ræðu minni að fara yfir hvað gerist síðan, ekki vegna þess að ég hafi svarið, það er algjörlega óskiljanlegt að mönnum skuli detta í hug að bæta við fjórum nýjum virkjunarkostum og finna sér fjallabaksleið til að rökstyðja það, að einhvern tíma hafi verið fjallað um þessar virkjanir, snupra verkefnisstjórn sem starfar í dag, verkefnisstjórn 3. áfanga, sem hefur fengið beiðni frá viðkomandi hæstv. ráðherra þar sem óskað eftir því að farið verði í gegnum mat á þeim virkjunarkostum sem færður voru úr nýtingarflokki í biðflokk. Verkefnisstjórnin kemst að eftirfarandi niðurstöðu: Við getum lokið einni, þ.e. Hvammsvirkjuninni. Síðan skipar meiri hluti hv. atvinnuveganefndar sig sjálfan sem verkefnisstjórn, sniðgengur hina, og tekur ákvarðanir. Við eigum svo bara að bíða eftir ákvörðun hinnar þegar þessi tillaga hefur verið samþykkt.

Svo koma friðarpostular eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson sem segir að við eigum að ná friði og sátt. Það er ekki nema eitt skilyrði, þ.e. að við byrjum á að ákveða hlutinn, afgreiða málið, svo eigum við að semja. Hvers lags hugmyndafræði er þetta?

Ástæðan fyrir því að það er allt meira og minna strand og stopp hér í þinginu er þessi óbilgirni og sú ákvörðun sem felst í því að ef tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar verður samþykkt, þá er verið að henda rammaáætlun og eyðileggja ferlið.

Ef við skoðum meiri hluta þeirra umsagna sem bárust til hv. atvinnuveganefndar þá segja þær meira og minna: Höldum ferlinu, höldum ferlinu. Það eru mjög skiptar skoðanir í samfélaginu, það eru skiptar skoðanir innan flokka og milli flokka um það hvað eigi að virkja. En það var búið að ná samkomulagi um hvernig ferlið ætti að vera. Að reyna svo að finna fjallabaksleiðir til þess að komast hjá því finnst mér vera ótrúlega ósvífið og óskynsamlegt. Þess vegna stöndum við hér og ræðum þetta mál dag eftir dag, við ætlum ekki að láta það yfir okkur ganga að lög séu sniðgengin til þess að koma fram einstaklingssjónarmiðum varðandi það hvað er virkjað og hvað ekki.

Hæstv. ráðherra var með tillögu um eina virkjun, Hvammsvirkjun, og það liggur fyrir m.a. frá Samfylkingunni og þeim sem hér stendur, og margir aðrir hafa sagt: Drífum þá tillögu áfram. Þá getum við afgreitt hana, síðan kemur verkefnisstjórn 3. áfanga með hinar tillögurnar síðar, hvernig sem hún flokkar þá kosti, eftir að hafa athugað málið vel. En hv. atvinnuveganefnd fimmfaldaði tillöguna, bætti við fjórum nýjum virkjunarkostum, Urriðafossi, Holtavirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun. Í umræðunni lýsti síðan núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra efasemdum um að bæta ætti við þessum virkjunum, lýsti andstöðu við Hagavatnsvirkjun, taldi að Skrokkalda ætti ekki heldur að vera með, en bætti svo við að hún mundi viðurkenna rétt þingsins til að taka ákvarðanir, hina þinglegu meðferð. Hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur ekki komið hér í umfjöllun um þetta mál og sniðgengið alveg að standa við það sem hann lagði sjálfur fram og þá tillögu sem ríkisstjórnin bar inn í þingið eftir að þingflokkar höfðu samþykkt hana. Það vekur út af fyrir sig athygli hvað felst í þeirri fjarveru.

Hv. atvinnuveganefnd, meiri hluti hennar, eftir að við höfðum verið með ágætisumræðu og notalega fyrri umr. í sambandi við virkjunarkosti — að vísu byrjaði hún á því í desember, ef ég man rétt, að henda inn tillögu um að það stæði til að bæta við átta virkjunarmöguleikum — endar svo með að leggja til fjóra kosti, vitandi það fullvel að það mundi kalla á upplausn í þinginu og það á lokametrunum.

Það er svolítið gaman að skoða rökstuðning fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra við upphaflegu þingsályktunartillöguna. Nú er það ekki þannig að ég geti farið með þá 20 ára sögu sem liggur að baki rammaáætlunar þar sem menn byrjuðu árið 1993, ef ég man rétt, að skilgreina hvernig ætti að gera langtímaáætlanir og hvernig ætti að losna við þau átök sem ævinlega hafa verið um einstakar virkjanir. Við höfum búið við það að einstakar virkjanir voru skoðaðar og sett sérlög um allar stærri virkjanir. Það voru gríðarleg átök um hvern einasta stað, það var deilt um umhverfisáhrif, það var deilt um tilgang virkjana, það var deilt um hvort virkjunin væri sjálfbær, hvort hún mundi valda varanlegum náttúruskaða, áhrifin á ferðaþjónustuna, hvaða línulagnir þyrfti og svo mætti lengi telja Oft var ágreiningur innan þingflokka og þá réðu byggðasjónarmið. Oft voru hrossakaup þegar menn voru að reyna að ákveða virkjunarkosti, en allt var þetta meira og minna bundið við einstakar virkjanir. Út úr þessu ástandi vildu menn komast, að það væri ekki verið að semja í bakherbergjum á milli stjórnarflokka eða svipuðum hætti um það hver fengi hvað af kökunni eða einstökum virkjunum. En nú er greinilega aftur komin þörf fyrir það hjá þeim sem sitja í meiri hluta atvinnuveganefndar að geta farið að víla og díla um einstaka virkjunarkosti.

Umræðan hafði líka breyst á þessum tíma og það var aukin krafa um umhverfisvernd. Það var farið að ræða vernd samhliða nýtingu en þessu hafði áður gjarnan verið stillt upp sem andstæðum. Það var tekist, eins og ég sagði, hart á um kosti og galla einstakra virkjana, og það var erfitt að fara inn í þessa umræðu. Ég var einn af þeim sem áttu mjög erfitt með það og ég man eftir því hvað það var eftirminnilegt þegar ég fékk tækifæri til að fara upp á Eyjabakkana þegar til stóð að búa til lónið þar. Þá fór ég með hinum látna öðlingi Hákoni Aðalsteinssyni sem leiðsögumanni, og mér er mjög minnisstætt það sem hann sagði, vegna þess að þá var hann ekki búinn að taka afstöðu með eða á móti mögulegum virkjunarkostum á Austurlandi, sem hann tók svo afstöðu gegn síðar. Þá sagði hann: Það er eiginlega ekkert hægt að fara inn í þessa umræðu vegna þess að það eru alltaf báðir endarnir sem rífast, þ.e. öfgasinnarnir í öðrum hvorum endanum, og það er eiginlega ekki hægt að fara inn í þá umræðu með skynsemisrök. Svo tók hann nokkur dæmi. Hann nefndi til dæmis að talað væri um að allt fuglalíf mundi deyja ef lónið kæmi, en hann sagðist nú aldrei hafa séð neinar gæsir eða endur sem ekki flytu. Hann ræddi líka að menn segðu að hreindýrin mundu ekki fá nóg pláss og afgreiddi það út af borðinu að það væri nóg pláss á Austurlandi. Hann benti aftur á móti á það að hækkun og lækkun á yfirborði lónsins mundi valda foki og erfiðleikum með leirurnar sem mundu skapast þar í kringum lónið.

Þessi umræða kemst aldrei almennilega upp á borðið. Við vorum að leita að farvegi fyrir þá umræðu í gegnum faghópa, í gegnum faglega vinnu, í gegnum verkefnisstjórnir til þess að vera laus við átökin og síðan koma tillögur að sjálfsögðu til kasta Alþingis að lokum. Þegar menn fóru í þetta ferli á sínum tíma var rætt um að skoða ætti nýtingu, skoða verndun og friðun og ýmsa þætti. Og í 2. áfanga rammaáætlunar átti að auka vægi verndar og fjölbreyttari nýtingu náttúruauðlinda. Það var ekki bara spurning um virkjanir, það var spurningin líka um aðra nýtingu, sjálfbærni orkuauðlindanna og hvort skaðinn væri til frambúðar o.s.frv. Þá voru 66 hugmyndir metnar, það voru 28 kostir í vatnsafli og 38 í jarðvarma. Undirhópar voru skipaðir, faghópar sérfræðinga, það var skipaður hópur sem átti að skoða náttúruna, útivist og ferðaþjónustu og hlunnindi, efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana, og virkjunarframkvæmdir og hagkvæmni þeirra.

Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni, þ.e. upphaflegu tillögunni frá hæstv. ráðherra, fær rammaáætlun lögformlega stöðu fyrst með lögum nr. 48/2011. Þá er ákveðið að raða kostum í þrjá flokka, nýtingu, vernd og biðflokk. Og einmitt eftir að verkefnisstjórn skilar til ráðherra niðurstöðum úr 2. áfanga rammaáætlunar eru lögð fram drög að þingsályktunartillögu sem er sett í tólf vikna opið samráð og umsagnarferli þar sem bárust yfir 200 athugasemdir. Það er gert samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var í þinginu og með lögum um hvernig ætti að fara með málið. Eftir að umsagnarferlinu var lokið voru gerðar nokkrar breytingar en þar voru sett þau mörk, og það get ég staðfest, hafandi verið í ríkisstjórn á þeim tíma, að við gerðum engar breytingar nema að fyrir þeim væru fagleg, málefnaleg rök og við mundum aldrei færa á milli nýtingarflokks og verndarflokks. Niðurstaðan varð sú að vegna viðbótarupplýsinga voru sex virkjunarkostir á tveimur svæðum færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Takið þið eftir því, það er eðlismunur á því hvort menn færa kosti úr nýtingarflokki til frekari skoðunar eða eins og hér er lagt til, að færa úr biðflokki í nýtingarflokk. Það er eðlismunur á því. Það eina sem var ákveðið var að taka mið af þessum nýju upplýsingum og varúðarsjónarmiðum sem gilda almennt um það hvernig fara skal með slíkar ákvarðanir.

Það var sem sagt farið í gegnum umsagnarferlið, 2. áfangi kláraður, vinnunni skilað inn í þingið og tillagan samþykkt hér. Takið eftir að ferlið sem upphaflega var forsenda þessa, með öllu því sem því fylgdi, var samþykkt einróma á þinginu, af því að allir mátu það þá að það skipti máli að eiga rammaáætlun, geta fundið leið til þess að taka ákvarðanir um virkjunarkosti.

Síðan hefur komið upp ágreiningur, því skal ekkert vera leynt, ágreiningur um skilning á ákveðnum atriðum rammaáætlunar. Þá byrja menn einmitt að teygja ýmsa hluti í rammaáætlun, eins og t.d. þar sem segir orðrétt að leggja skuli fram nýja tillögu „eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti.“ Þá hafa menn leyft sér að túlka þetta þannig að það megi bara gera það á morgun, samþykkja tillögu í dag og síðan nýja tillögu á morgun. Þetta minnir mig á það þegar við skátarnir fengum einhvern tíma úthlutað landi í Skorradal og í plögg frá ráðuneytinu var sett að við fengjum land allt að 600 metrum. Embættismennirnir settu á okkur 50 metra. Ráðherra tók þá af skarið og sagði: Nei, við erum að tala um 599 metra. Það er eins hér, þegar talað er um fjögur ár er verið að tala um fjögur ár, ekki á fjögurra daga fresti. En þarna teygja menn sig eins og hægt er. En það er enginn ágreiningur um það að þegar búið er að fara í gegnum allt ferlið, þegar búið er að fara í gegnum verkefnisstjórnir, þegar búið er að afgreiða tillögurnar þá koma þær endanlega til ákvörðunar Alþingis.

Ágreiningurinn hér og nú stendur um það: Af hverju klárar ekki verkefnisstjórn 3. áfanga þær tillögur sem voru sendar til hennar af hæstv. ráðherra með ósk um flýtingu, það voru sett ákveðin tímamörk? Hún svarar með einni tillögu, um Hvammsvirkjun, ráðherra kemur með þá tillögu inn í þingið. Hvað ræður því að ekki má bíða eftir niðurstöðum verkefnisstjórnar? Hvað veldur því að þingmenn hv. atvinnuveganefndar gera sig að verkefnisstjórum og ætla svo seinna að sjá álit verkefnisstjórnar 3. áfanga? Þetta er mér algjörlega óskiljanlegt og ég held að við séum að tala hérna um einhverja daga sem gætu breytt því hvort við lemjum þetta í gegn með þessari leið en eyðileggjum um leið ferlið, einhverjir dagar þar sem við bíðum eftir því að fá niðurstöðuna og getum þá tekið ákvörðun um virkjanir í framhaldi af því.

Það er gríðarlega fróðlegt að lesa greinargerðina með tillögunni eins og hún var lögð fram af hæstv. umhverfisráðherra þá, Sigurði Inga Jóhannssyni. Og ég skora á fólk að gera það vegna þess að þar er rökstuðningur fyrir því af hverju þetta var gert með þessum hætti og af hverju það kom bara tillaga um eina virkjun. Ég hef ekki tíma til að fara yfir þau atriði þó að þetta sé 20 mínútna ræða, ég gæti vitnað orðrétt í ótal atriði í greinargerðinni en ég næ ekki að fara yfir það.

Það hefur verið ágreiningur um einstaka hluti í ferlinu, það deilir enginn um það, við vitum af því, og það þýðir að betra væri að fara yfir ferlið og ef menn hafa athugasemdir við það, gera þá breytingartillögu við rammaáætlun í staðinn fyrir að sniðganga hana, í staðinn fyrir að brjóta reglurnar og lögin eða a.m.k. ganga eins langt og hægt er til þess að mistúlka þau þeim í hag sem vilja virkja án þess að náttúran fái að njóta vafans og menn fái úrlausn þeirra mála sem hafa komið upp í sambandi við ákvarðanir um hvað megi virkja og hvað ekki.

Þetta er sérlega erfitt fyrir okkur sem erum ekki hér til þess að verjast ákveðnum virkjunarkostum. Við erum ekki hér til að hindra ákveðnar virkjanir. Við viljum einmitt fá að fjalla um niðurstöður verkefnisstjórnarinnar og fá tækifæri til þess að hafa öll gögnin á borðinu. Hún mun væntanlega vitna í eldri álit og þau sem eru núna til skoðunar sérstaklega. Komum eftir það að borðinu og metum stöðuna. Ekki hoppa yfir og sniðganga verkefnisstjórn sem skipuð var. Og takið eftir að þessi verkefnisstjórn hefur fengið sín verkefni frá núverandi ríkisstjórn. Það eru ráðherrar úr núverandi ríkisstjórn sem hafa sent verkefni til verkefnisstjórnar. Þess vegna er óskiljanlegt að menn skuli leyfa sér í þinginu að láta eins og þetta skipti engu máli og ætla að sniðganga þetta. Hafandi sagt það þá breytir það ekki því að þegar allt er komið og þegar verkefnisstjórnin er búin að skila af sér þá hefur auðvitað hv. Alþingi endanlegt ákvörðunarvald um niðurstöðuna.

Þegar menn ræða um hvernig hægt er að koma þessu máli áfram þá finnst mér það í raun óskaplega hófleg tillaga frá stjórnarandstöðunni að segja: Afgreiðum upphaflegu tillöguna. Hún kom frá hæstv. umhverfisráðherra með góðum rökstuðningi. Tökum út það sem er bullandi ágreiningur um. Við erum ekki að taka afstöðu um að það eigi ekki virkja þá kosti sem þar eru undir, við tökum afstöðu með rammaáætlun, með málatilbúnaðinum, með reglunum, með lögum um að verkefnisstjórn 3. áfanga fái að ljúka vinnu sinni í samræmi við þau verkefni sem henni voru falin.

Það er á sama tíma mikið umhugsunarefni að þegar ný ríkisstjórn tekur við þá minnka menn fjárveitingar til að vinna úr þessum áætlunum, minnka peningana til verkefnisstjórnar. Og það sem meira er, í lögunum sem samþykkt voru samhljóða á sínum tíma, í þeim hluta sem fjallar um vernd, segir að það eigi að taka afstöðu til friðunarkosta og ganga eigi frá friðun. Ný ríkisstjórn tekur þessa kosti alla út. Hv. þingmenn verða bara að virða mér það til vorkunnar þótt ég segi: Er eitthvað skrýtið við að okkur finnist þetta undarlegt hjá nýrri ríkisstjórn sem gefur sig út fyrir að ætla að vera í fremstu röð í heiminum í umhverfismálum? Hún setur umhverfisráðuneytið ofan í skúffu hjá öðrum ráðherra, sem þó kemur með skynsamlega tillögu, menn snupra verkefnisstjórn, reyna að gera allt til þess að komast lengra, til þess að komast fram hjá ferlinu, af einhverjum ótta við að verkefnisstjórn komi með vitlausar niðurstöður eða kannski er það ofmetnaður, menn telji sig hafa meira vit en verkefnisstjórnin þótt hún sé í raun og veru aðeins að gefa sitt álit, en þær forsendur viljum við fá áður en endanleg afgreiðsla er tekin. Á sama tíma er náttúruverndarlögum hent út af borðinu. Síðan kemur í ljós að það er enginn ágreiningur í þessum lögum, samt er búið að eyða meira en ári án þess að komast að niðurstöðu. Ég held að það sé bara vegna vinnuleysis. Á sama tíma er verið að biðja okkur um að fresta því eitt ár í viðbót.

Getur þessi ríkisstjórn ætlast til að einhver taki hana alvarlega sem ríkisstjórn sem ætlar að berjast fyrir því að við á Íslandi verðum með þeim fremstu í heiminum í umhverfismálum? Það er engin alvara á bak við þetta. Það er gamaldags stórkarlapólitík hér á bak við(Forseti hringir.) og beiðni um að fá að ráðskast með einstaka hluti í staðinn fyrir að fylgja ferlum og áætlunum.