144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega. Það þarf að laga fulltrúalýðræðið að því leytinu til að eins og við höfum haft það hingað til þá er meiri hlutinn, sem er kannski með 60%, kannski er hann með 51%, samt alltaf með 100% af völdunum. Það er ekki mjög djúpt fulltrúalýðræði, við þurfum að breikka og dýpka það. Ein leið til þess væri, eins og hv. þingmaður nefndi, að minni hluti þingmanna, sama hvort það væri 1/3 eða annað, eins og í Danmörku, gæti vísað málum til þjóðarinnar. Það þýðir það náttúrlega að menn verða að vera meira samstiga, fulltrúarnir, kjörnir fulltrúar verða að vera miklu meira samstiga um langtímastefnumótun og það er vel.

Aftur á móti ætla ég að spyrja þingmanninn hvort hann sé ekki líka hlynntur því, og hvaða afleiðingar hann mundi sjá ef tiltekinn minni hluti landsmanna, kjósenda, eins og svona 10%, gæti tekið til sín og vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu málum sem þingið hefði samþykkt, og ályktunum þingsins. Hvaða afleiðingar mundi hann sjá eða áhrif, sýnist honum, (Forseti hringir.) á til dæmis þessa umræðu sem á sér stað hér og langtímastefnumótun, rammann og önnur slík stór mál?