144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það hefði nákvæmlega sömu áhrif og ég nefndi varðandi þingmennina, ég held að það mundi skipta máli, þjóðin getur þá látið vita að við erum ósátt við hvernig verið er að fara með málin.

Ég held að menn muni ekki misnota þetta þegar í framkvæmdina væri komið. Ég held að menn muni axla ábyrgð og vanda sig mjög vel. Kosturinn við þjóðaratkvæðagreiðslu er sá að hún kallar á umræðu og hún kallar á það að fólk kynnist hlutunum og fái að læra um þá. Það þarf þess vegna líka að búa til þannig form að fjársterk öfl geti ekki farið hér fram með látum og hamast á almenningi, heldur að settar séu reglur um hvernig kynning á að vera á málum þannig að allir eigi kost á því að koma sjónarmiðum sínum fram.

Þetta tengist svo sem annarri umræðu, sem er líka mjög mikilvæg, það er mikilvægi almennra samtaka, t.d. Landverndar eða þeirra sem vilja fylgjast með og líka þeirra sem eru virkjunarsinnar að fá stuðning til þess að geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri, vegna þess að lýðræðið byggist á þekkingu, það byggist á vandaðri umfjöllun, (Forseti hringir.) og ákvörðunartakan á að byggjast á því, ekki eins og verið er að gera hér.