144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:00]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og fagna því að við séum hér í málefnalegri umræðu. Hv. þingmaður talar um að meiri hluti atvinnuveganefndar skipi sjálfa sig sem verkefnisstjórn. Hann nefnir að atvinnuveganefndin sé að henda rammaáætlun. Ég bendi hv. þingmanni á að hér eru niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar og það eru einmitt niðurstöður frá þeim fjórum faghópum sem atvinnuveganefnd byggir tillögur sínar á. Hv. þingmaður bendir á að það komi ný rammaáætlun á fjögurra ára fresti, þannig að þetta er sú rammaáætlun sem við búum við í dag. Er hv. þingmaður búinn að henda þeirri rammaáætlun og er hún orðið gagnslaust plagg?