144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:06]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ágæta ræðu. Þar kom margt fróðlegt fram. Mig langar að halda aðeins áfram á svipuðum nótum.

Það kom fram í atvinnuveganefnd þegar sérfræðingar rammaáætlunar 3 voru þar til viðtals að Elín Líndal, sem var með sérálit í áætluninni, sagði að fyrirliggjandi gögn hefðu verið nægileg varðandi kostina þrjá í Þjórsá og að þeir færu í nýtingarflokk. Það var búið að raða rammaáætlun 2 svo að verkefnið í rammaáætlun 3 var að bæta við upplýsingum sem voru góðar og því auðvelt að taka ákvörðun. Hún var sem sagt á móti því að ekki lægi fyrir ákvörðun þarna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort það hafi ekki komið honum á óvart að Veiðimálastofnun skyldi ekki vera kölluð til í rammaáætlun 3 til að ræða um mikilvægi laxastofnsins í ánni, sem við erum sammála um að sé mikilvægur.