144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum að koma hingað upp og segja hlutina aftur og aftur í þeirri von að einhver heyri eða telji að við gætum mögulega haft eitthvað fyrir okkur í því að hingað þurfi menntamálaráðherra, forsætisráðherra og fjármálaráðherra að koma til að eiga við okkur orðastað um þau alvarlegu mál sem eiga sér stað í samfélaginu. Í fyrsta lagi er staðan á vinnumarkaði og í öðru lagi sú umbylting á menntastefnu sem á sér stað í skjóli umræðu um þetta mál þar sem menntamálaráðherra fer fram eins og hv. þm. Árni Páll Árnason hefur farið vel yfir.

Það getur heldur ekki gengið að í vikunni áður en ljóst er að fjöldinn allur af Íslendingum fer í verkfall sem mun lama flugsamgöngur (Forseti hringir.) til og frá landinu og verkfall hjúkrunarfræðinga mun hafa veruleg áhrif á heilbrigðisþjónustuna, (Forseti hringir.) þá séum við ekki að ræða þau mál. Það getur ekki gengið þannig.