144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Málþóf er kerfislægt vandamál sem má leysa með því að færa málskotsréttinn til þjóðarinnar, eins og m.a. hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson talaði um að væri vilji fyrir hjá sér að gera, að leggja það í dóm landsmanna hvort gera eigi slíka stjórnarskrárbreytingu samhliða forsetakosningum á næsta ári. Þangað til er þetta kerfislægt vandamál. Það sem þingmenn meiri hlutans núna segja er það sama og þingmenn meiri hlutans sögðu á síðasta kjörtímabili; þetta snýst ekki um fólk, þetta snýst ekki um pólitíkusa, þetta snýst um það að þetta er kerfislægt vandamál.

Meðan þetta er eina leiðin til þess að stöðva það að meiri hlutinn á þingi, sem er 32+ einstaklingar, geti gengið gegn vilja meiri hluta kjósenda, sem eru 110.000+ einstaklingar, þá verður málþófi beitt, sama hvaða minni hluti á í hlut. Minni hlutinn síðast gerði það. Forsætisráðherra sagði fyrr í dag: Þið eruð örlítið verri en við vorum á síðasta kjörtímabili. (Forseti hringir.) Það eru ekki rök, þetta er kerfislægt vandamál. Verum heiðarleg með það.