144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þessa spurningu. Hv. þingmenn Vinstri grænna lögðu á sínum tíma fram tillögu um að Kárahnjúkavirkjun yrði borin undir þjóðina og lýstu sig reiðubúna að taka niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu. Hins vegar tel ég mjög mikilvægt að svona mál séu áfram unnin faglega, þ.e. að við höldum í þetta faglega ferli. Ég hef barist fyrir því og talað fyrir því innan stjórnarskrárnefndar sem nú situr, skipuð fulltrúum allra flokka, að sett verði mjög skilmerkileg ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá þannig að ákveðinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Mér finnst eðlilegt að það eigi ekki bara við um lagafrumvörp heldur geti til að mynda átt við um ákvarðanir á borð við þessa.

Ég hef líka tekið undir þau sjónarmið að tiltekinn hluti þingmanna eigi að geta haft slíkan málskotsrétt. Ég hef heyrt þau mótrök gegn því að hér á landi sé þingmenningin, stjórnmálamenningin, þannig að það mundi skapa eilífan óróa. Ég tel aftur á móti að slíkur réttur tiltekins minni hluta þingmanna mundi einmitt hafa áhrif til góðs á þingmenninguna og stjórnmálamenninguna.

Eins og hv. þingmanni er auðvitað kunnugt um þá er gallinn við beint lýðræði, ef maður er tilbúinn að fara að því, sá að þjóðin getur að sjálfsögðu tekið aðrar ákvarðanir en manni sjálfum finnst endilega réttar. Það er með þjóðaratkvæðagreiðslur eins og kosningu í Eurovision, maður er ekki alltaf sáttur við úrslitin, það er bara svoleiðis. Ég hef verið tilbúin til þess og minn flokkur með Evrópusambandið, það risastóra mál. Við mundum fylgja leiðsögn þjóðarinnar í því máli. Ég tel raunar að við getum gert það í miklu fleiri málum en við gerum.

Ég svara hv. þingmanni játandi, en með þeim fyrirvara að það er mikilvægt að halda hinu faglega ferli.