144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ekki treysti ég mér til þess að taka þátt í þeirri sálfræðilegu krufningu sem hv. þingmaður framdi hér áðan á hv. þingmönnum stjórnarliðsins og einkum þeim tveimur sem hér ráða för, en í meginatriðum gengur skýring hv. þingmanns út á það að einhvers konar sálfræðilega duldir ráði framlagningu þessarar breytingartillögu. Það má að sjálfsögðu taka undir það en ég treysti mér ekki til þess að leggja mat á það.

Hv. þingmaður talaði um að ræðutíminn væri allt of skammur, hún ætti margt ósagt og óskýrt. Þá get ég huggað hv. þingmann með því að ef þeir menn sem eiga við þær meinsemdir að stríða sem hv. þingmaður var að greina áðan fá áfram ráðið gangi þingsins, þá er líklegt að hún geti fram eftir sumri tjáð okkur það sem óskýrt er í mörgum skörpum fimm mínútna ræðum fram undir ágústbyrjun.(Gripið fram í.)

Mig langaði, herra forseti, af því að hv. þingmaður er vitsmunavera, að ræða við hana eitt sem er undirstaða þessa máls að ef þær virkjanir sem hér er lagt til að yrðu að veruleika mundi ekki vera hægt að knýja það fram öðruvísi en að fremja eignarnám í stöku tilvikum. Ég hef oft velt fyrir mér grundvelli eignarnáms. Það er heimilt samkvæmt stjórnarskránni ef einhvers konar brýnar þjóðhagslegar nauðir rekur til. Í þessu tilviki þar sem við erum að tala um orku gæti það verið tvennt aðallega, það væri mikið atvinnuleysi, en ég komst á sínum tíma að þeirri niðurstöðu það gæti réttlætt eignarnám, sömuleiðis ef orkuskylft væri í landinu, en nú er hvorugt fyrir hendi.

Þá velti ég fyrir mér og vil biðja hv. þingmann um afstöðu til þess að það að tvö fyrirtæki á markaði gera samning sín í milli réttlæti það að land sé með nauð og þvingun tekið af einhverjum. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar til þess af því hún tilheyrir nú flokki (Forseti hringir.) þar sem a.m.k. sumir menn, ég gæti vísað til marks um það í vin minn hv. þm. Ögmund Jónasson, gefa ekki mikið fyrir einkaeignarréttinn. En er hv. þingmaður sömu skoðunar og ég?