144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össur Skarphéðinssyni þetta síðara andsvar. Því er til að svara að áhuga minn á mannlegu eðli að ég hef nú haldið dagbók, kannski gef ég hana einhvern tímann út eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þá getur hann fræðst meira um vangaveltur mínar um mannlegt eðli af reynslu minni hér í þingsal.

Vissulega er það rétt sem ég sagði hér áðan að þarna þurfa auðvitað miklir almannahagsmunir að vera fyrir hendi. Það auðvitað skín út úr þeim umsögnum. Það er auðvitað okkar hlutverk þingmann að reyna að meta og vega hagsmunina þegar við tökum afstöðu til mála óháð öllu því sem við höfum rætt hér um form að halda almannahagsmunum, að taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Það hlýtur auðvitað að vera sá mælikvarði sem við nýtum í þessu máli sem öðrum, það hlýtur að vera hlutverk okkar. Það er raunar vandamál stjórnmálanna að mínu viti, ekki bara á Íslandi heldur víðar í Evrópu, að það er þegar stjórnmálamenn einmitt gleyma almannahagsmunum (Forseti hringir.) og eru of uppteknir af sérhagsmunum.

(Forseti (ÓP): Athygli forseta hefur verið vakin á því að láðst hefur að merkja hér við 4. þingmanninn sem hafði óskað eftir að veita andsvör við ræðu þingmannsins. Forseta langar til þess að brjóta odd af oflæti sínu og leyfa hv. þm. 5. þm. Suðurk., Páli Jóhanni Pálssyni, að veita andsvör við ræðunni ef ræðumaðurinn er því ekki mótfallinn.)(ÖS: Gefa honum hálftíma.)(KJak: Tökum bara nótis af þessu fordæmi.)