144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Málþóf er kerfislægt vandamál og skiptir ekki máli hverjir eru í minni hluta og hverjir eru í meiri hluta. Þeir sem eru í minni hluta, óháð því hverjir þeir eru, munu alltaf beita því. Þetta er kerfislægt vandamál sem hægt er að leysa að mestu leyti, og réttlæting og þörf fyrir því og freisting að þjóðin fái málskotsréttinn í sínar hendur, eins og mikið er byrjað að tala um núna af þingmönnum og ráðherrum sem er mjög vel.

Við munum örugglega vera lengi í kvöld, ég geri ekki ráð fyrir öðru, en ég kalla samt eftir því að forseti endurskoði það, taki þetta mál af dagskrá, við komum fersk aftur á morgun með nýja dagskrá, húsnæðismálin, við förum að ræða þau og á meðan setji forseti það bara niður fyrir þingmönnum að finna lausn þar sem allir geta gengið frá þessum málum með höfuðið svona sæmilega háreist. Þegar menn eru búnir að fjárfesta svona miklu egói í svona mál þá er alltaf gott að finna sameiginlega útgönguleið þó þannig (Forseti hringir.) að við séum ekki að brjóta rammalöggjöf, séum ekki að brjóta löggjöf sem er best til þess fallin að skapa langtímastefnumótun (Forseti hringir.) um orkumál.