144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil eins og samstarfsfélagar mínir óska eftir því að fá að vita hversu lengi fundurinn á að standa í kvöld, og eins og ég gerði hér fyrr í dag og eiginlega við upphaf umræðunnar að spyrja hver ætli að taka að sér málefni umhverfisins og náttúrunnar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ekki er það hv. þm. Jón Gunnarsson, það er augljóst, hann tekur stöðu virkjunarsinna en það þarf eitthvert mótvægi og því er ekki óeðlilegt að við köllum eftir því að ríkisstjórnin fylgi sínu mikilvægasta máli úr hlaði og skipi einhvern til þess að sinna því í ljósi fjarveru hæstv. umhverfisráðherra. Það er ekki boðlegt að sitja hér í umræðu, lengdum þingfundi, sem meiri hluti þingmanna býður okkur upp á og fæstir þeirra taka svo þátt í því eða sitja hér við umræðuna. Við þurfum að fá svör, virðulegi forseti, fyrr en síðar áður en langt líður inn í kvöldið.