144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi dagur byrjaði með hagléli, nú er Ísland dottið út úr söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva. Mér er til efs að nokkuð gott komi út úr þessum degi og þeirri umræðu sem heldur áfram hér, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég sagði í gær á miðnætti að rannsóknir sýndu að gæði talaðs máls á Alþingi dvínuðu eftir því sem liði á kvöldið, því var raunar andmælt af einum hv. þingmanni, Össuri Skarphéðinssyni, en þó er mér til efs að þau andmæli byggist á alveg réttum grunni. Ég tek því undir með þeim sem velta vöngum yfir því hversu lengi eigi að halda áfram umræðu í ljósi þess að hér fást engin svör við þeim spurningum sem hafa verið lagðar fram. Það fást engin svör við þeim. Spurningarnar eru endurteknar og samt koma engin svör. Þá spyr maður sig: Til hvers er fram haldið? Er þá ekki betra að reyna að setja málin í einhvern annan farveg, herra forseti?