144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í þessum ræðum og í þessum umræðum öllum saman og samtölum mínum við þingmenn bæði meiri hluta og minni hluta sem þekkja málið betur en ég, þá virðist það vera þannig að þeir sem voru í minni hluta síðast hafa talið á sér brotið og hafa nefnt ýmis ágæt rök fyrir því. Sagt er að þau brot væru svona bolabrögð, ákveðið svindl, en þau hafi samt sem áður verið innan ramma laganna.

Það sem mér finnst skipta máli í þessu er að við missum ekki þennan ramma, þennan lagaramma, að við setjum hann ekki í lagalega óvissu svo að við missum ekki þetta stefnumál, langtímastefnumótunartól, til langtímastefnumótunar í orkumálum. Ég held því að Jón Gunnarsson væri maður að meiri, þrátt fyrir að hann hafi talið á sér brotið en þó innan ramma laganna síðast með einhverjum bolabrögðum, ef hann mundi finna einhverja lausn og sætta sjónarmið (Forseti hringir.) þar sem væri hægt að landa þessu máli farsællega án þess að brjóta rammann. Það væri ofboðslega faglegt og væri vel að verki staðið (Forseti hringir.) ef honum tækist það. (VigH: Já, það væri að draga tillögu Svandísar til baka.)