144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það fer eitthvað fyrir brjóstið á hv. vinnufélögum mínum að ég skuli kalla okkur örfáar hræður sem erum hér í þingsal. Ég stend bara við það, þetta er þekkt íslenskt orðtak og ekki hugsað til að niðurlægja einn eða neinn, hvorki sjálfan mig né aðra sem eru hér. En við erum sem sagt hér núna hvað, þrjú, sex, níu þingmenn af 63 í þingsal. Og það er svo sem ekki von á því, virðulegur forseti, að þingmenn sitji undir umræðu sem fer miklu meira fram um fundarstjórn forseta en sem efnisleg umræða. Ég er alveg viss um að ef við mundum einbeita okkur að efnislegri umræðu um málið þá miðaði okkur mun betur áfram.

Það þarf tvo til, virðulegi forseti, til að ná sátt um mál, það þarf sáttarvilja beggja vegna. Það eina sem boðið hefur verið upp á er: Takið þið þetta mál til baka, lokið þið því, það er lagalegur ágreiningur um það. En það er enginn úr minni hlutanum búinn að leggja fram neinn rökstuðning, skriflegan rökstuðning, lagalegt álit um það hvernig verið er að brjóta hér lög, vegna þess að það er ekki hægt. Hér er verið að fara fullkomlega að lögum og ég hef hvatt þingmenn til þess að hætta þessu. (Forseti hringir.) Ég hvet okkur því til að halda áfram, virðulegur forseti, inn í nóttina. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur oftar en ekki nefnt það að það sé hverjum þingmanni hollt að vera hér þar til (Forseti hringir.) sólarupprás verður og ég held að það sé ástæða til þess. Það eru 18 á mælendaskrá eins og staðan er í dag.

(Forseti (ÓP): Forseti vill biðla til þingmanna að þeir reyni að halda sig við tímamörk.)