144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem áður hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum að það er full ástæða til þess í ljósi þess sem hv. þm. Jón Gunnarsson hefur sagt að taka málið af dagskrá og ræða það í kvöld, það er líka hægt að ræða það í fyrramálið og finna á því lausn. Þessi framgangsmáti skilar augljóslega engu, hann sýnir hins vegar stöðugt hversu veikt málið er, málatilbúnaðurinn götóttur, en hann leiðir okkur ekkert nær niðurstöðu. Það verður að setjast yfir þetta mál og komast að einhverri vitrænni niðurstöðu. Hún getur ekki falist í því að við kaupum dýru verði það að meiri hluti atvinnuveganefndar fari að lögum. Það á að vera nokkurn veginn sjálfgefið. Þess vegna held ég að það sé vænlegast til árangurs og til að greiða fyrir þingstörfum að taka málið af dagskrá og setjast yfir það í framhaldinu.