144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:55]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég get sagt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hef heimildir fyrir því að fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins hefur heilmikinn áhuga á að leita lausna. En fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins hefur aldrei skynjað almennilega frá því hann byrjaði á þingi að stjórnarandstaðan hafi yfir höfuð mikinn áhuga á að leita lausna og allra síst um mál tengd þessu. Þegar maður hefur hlustað á umræður um hvaða aðferð þessi sama stjórnarandstaða sem var í stjórn á síðasta tímabili beitti við að fara raunverulega gegn sátt um rammann eins og hefur komið fram í þeirri ágætu bók sem gjarnan er minnst hér á, skrifuð af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, (Gripið fram í.) þá er alveg ljóst að það er enginn vilji til þess af hálfu flestra í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) og það hefur verið öllum augljóst. Eina sem hægt er að semja um að þeirra mati er að fara að kröfu þeirra og hefur alltaf verið þannig.