144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er skrýtin staða sem Alþingi Íslendinga er komið í. Hér er talað um fundarstjórn forseta milli hverrar einustu ræðu sem er flutt í þinginu. Nú er málflutningur stjórnarandstöðunnar búinn að snúast í þá átt að kalla eftir sáttum, en það hefur komið fram að það er enginn sáttatónn í stjórnarandstöðunni, alla vega ekki, virðulegi forseti, í leiðtoga stjórnarandstöðunnar á þingi, hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur sem var umhverfisráðherra á þeim umdeilda tíma þegar hún sem ráðherra fer á móti 14 ára samningaferli um hvað ætti að fara í nýtingu og hvað ætti að fara í bið. Um það snýst þetta mál.

Hér var kallað eftir því hvað væri hægt að gera til þess að ná sáttum. Virðulegi forseti. Það er raunverulega að spóla til baka, draga til baka ákvarðanir hæstv. þm. Svandísar Svavarsdóttur frá ráðherratíð hennar og koma rammanum á þann stað sem hann var (Forseti hringir.) áður en Samfylkingin og Vinstri grænir sömdu sín á milli um ESB og rammann eins og kemur fram í títtnefndri bók.