144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er líkt og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir mjög hugsi yfir því hvernig þetta mál hefur þróast hér frá því að mælt var fyrir því. Eins og ég sagði í ræðu minni má alveg segja að það hafi verið málefnaleg sjónarmið hjá hv. ráðherra á sínum tíma þegar hann lagði til að einn virkjunarkostur yrði fluttur úr bið í nýtingarflokk, enda var búið að ljúka umfjöllun um hann.

Þess vegna næ ég ekki að skilja hvernig hv. þm. Jóni Gunnarssyni og öðrum hv. þingmönnum í meiri hluta hv. atvinnuveganefndar datt í hug að leggja þessa breytingartillögu til, því að ég vil eiginlega ekki ætla þeim svo illt að ætla að yfirlögðu ráði að eyðileggja rammaáætlun. Það verður samt eiginlega niðurstaða manns eftir umræður síðustu daga. Ég er kannski of bláeyg að ætla þessum hv. þingmönnum ekki að vilja eyðileggja rammaáætlun. Ég tek undir það að mér finnst staða hæstv. umhverfisráðherra í öllu þessu máli alveg óskaplega skrýtin. Það var jú hæstv. forsætisráðherra sem kastaði því upphaflega inn í umræðuna að gerð yrði breytingartillaga við breytingartillöguna og hæstv. ráðherra tók undir að það yrði gert. Hún gengur bara ekki nógu langt.