144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að halda í þá trú mína að mannkyn sé að upplagi gott og það þurfi dálítið mikið til þess að sýna mér fram á annað.

Varðandi það hvort hægt sé að meta náttúruna til fjár þá er ég í sjálfu sér sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að það sé líklega ekki hægt, alla vega er það verulegum vandkvæðum bundið. En ég velti því fyrir mér hvort það sé hins vegar ekki komið nóg ef við metum það sem svo að náttúran sé meira virði en það sem við gætum fengið út úr henni með því að gera eitthvað manngert úr henni, t.d. með því að virkja hana, hvort það sé að minnsta kosti ekki einhvers konar mælikvarði. Ef við metum það svo í dag að hún sé meira virði, þó svo að við vitum ekki hver lokatalan er, þá sé það nóg.

Svo vil ég segja það að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum að taka sjálfstæða umræðu um það hvers virði miðhálendið er, bæði fyrir okkur sem þjóð, en líka á heimsvísu. Og ég held að það sé umræða sem þurfi í raun alltaf að vera í gangi, því með breytingum eins og þeim sem ég nefndi í ræðu minni, hnattrænum breytingum og hlýnun jarðar, þá breytist auðvitað staðan á vogarskálunum. Þannig að við þurfum svo sannarlega að taka þá umræðu.