144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég trúi líka á hið góða í manninum. Ég trúi því að menn séu allir góðviljaðir og vilji vera það. Ég trúi því að Sjálfstæðisflokkurinn sé góðviljaður og margt gott hefur af honum sprottið, m.a. sá ættarlaukur sem stendur hér. Það er önnur saga og út í hana verður ekki farið.

Ég er mjög skeptískur á þá nálgun sem menn hafa tekið upp á síðustu árum að það eigi að meta náttúruna til fjár og t.d. fara í það að meta miðhálendið til fjár. Herra trúr, ef það býr til svona virði þá er hólminn sem við stöndum á til þess að slást orðinn heldur rýr, þetta er svo lítið. Það er hægt að sýna fram á að alls konar virkjanir og vegir og guð má vita hvað sé miklu verðmætari.

Prinsippumræðan þarf að fara fram. Hún hefur aldrei farið fram. Og það eru komnar nýjar og breyttar áherslur, ný viðhorf, bara frá þeim tíma þegar ég sem iðnaðarráðherra lagði fram vísi að þessu plaggi sem heitir rammaáætlun, t.d. að menn þurfi að hugsa það sjálfstætt hvort þeir vilji fara inn á miðhálendið. Þangað til þeirri spurningu er svarað á ekki að leggja til virkjanir sem eru á (Forseti hringir.) miðhálendinu. Þess vegna segi ég: Bara af þeirri ástæðu er nóg fyrir mig að ég vil ekki á þessu stigi einu sinni þurfa að taka afstöðu til Skrokköldu.