144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur hér fyrr í kvöld þá óskaði ég sérstaklega eftir því við forseta að hann tæki tillit til þess að við í VG ættum mjög erfitt með að manna þingfundinn í kvöld af sérstökum ástæðum. Forseti treysti sér ekki til að verða við þeirri bón að taka tillit til þeirrar stöðu sem var löngu fyrir séð. Við höfum staðið okkar plikt í þingsal eigi að síður, þrátt fyrir að ég hafi óskað eftir því að forseti tæki tillit til þessa.

Nú spyr ég forseta hvort ekki sé komið nóg. Klukkan er að verða ellefu og ég held að enginn þurfi að ganga sneyptur frá forsetastóli yfir að hafa haldið fund til ellefu um kvöld. Ég bið í fullri vinsemd og einlægni virðulegan forseta að láta gott heita í kvöld. (Forseti hringir.) Það eru 18 manns á mælendaskrá þannig að hún verður vísast ekki tæmd í kvöld. Það er því ekki mikil hætta á ferðum að þessu máli ljúki hér á klukkutíma.