144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að taka undir orð þingflokksformanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að láta þetta nú gott heita. Ég er næst á mælendaskrá. Mér þykir það sama gilda um mig og um hv. þingmann, eins og ég sagði hér í gærkvöldi, þann sem síðastur var á mælendaskrá, að það er ekki mikill bragur á því að flytja hér ræður fram á nótt og í myrkrinu. Það er ekki málinu til góðs að neinu leyti að því sé haldið hér áfram langt fram á nótt, af því að það er mikið kallað eftir efnislegum umræðum, að þær fari hér fram langt fram eftir nóttu.

Auðvitað þurfa að fást svör við því hversu lengi forseti hyggst funda. Það er ekkert óeðlilegt við að það verði upplýst. Ég vona svo sannarlega að „enn um sinn“ verði ekki svarið heldur verði það tímasett. Einhver hugsun hlýtur að liggja að baki því og vera búið að ræða það af hálfu forseta hvað stendur til að funda lengi í kvöld.