144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:49]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að þetta mál er komið í algjöran hnút í þinginu og hefur reyndar verið í hnút frá því að fréttist af breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar sem skellt var fram í miðju ferli og fyrir lokaumræðu, sem hér fer fram. Ef svo fer fram sem horfir gæti maður farið að ímynda sér að þessi umræða verði endalaus.

Það hefur verið talað um það síðustu daga að ástæða sé til þess að setjast niður og reyna að finna einhverja lausn í málinu fyrst svo illa tókst til að það var ekki gert í upphafi málsins. Þetta er eiginlega það sem maður þekkir úr stjórnunarfræðunum sem dæmisögu um slæma stjórnun. En þegar við erum komin út í horn er ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og reyna að leysa úr málunum. Ég hvet meiri (Forseti hringir.) hluta hv. atvinnuveganefndar til þess að opna á það, eins og mér heyrðist hv. þm. Jón Gunnarsson gera fyrr í kvöld, að setjast niður og ræða málin.