144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur verið kvartað yfir því að óþarflega miklum tíma hafi verið eytt í fundarstjórn forseta, en þetta mál er bara þannig vaxið að það þarf að ræða fundarstjórn forseta og hvernig þetta allt hefur komið inn í þingið.

Eitt gott hefur þó komið út úr þessu og það er að hæstv. fjármálaráðherra er farinn að tala um að breyta þurfi þingsköpum, þannig að ég fagna því. Þá er hann farinn að taka undir það sem ég og fjölmargir aðrir þingmenn hafa haldið fram bæði á þessu þingi og áður, það er gott mál. Ég mundi alveg vilja að það væri hægt að beita einhverjum öðrum aðferðum til að fá meiri hlutann til að hlusta, ég væri jafnvel til í að drekka ógeðsdrykk eða hlaupa berfætt um Austurvöll eða hvað sem er því mér hugnast það ekki að eiga í samræðum við fólk sem er ekkert endilega tilbúið að tala við mig. En svona er þetta, og ef þetta verður til þess fyrir það fyrsta náttúrlega að hindra að málið komist í gegn eins og það er sett upp núna, þá er það mjög gott, (Forseti hringir.) og líka ef hæstv. fjármálaráðherra er farinn að sjá ljósið varðandi það að breyta þurfi þingsköpum þá er það hið besta mál.