144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka frú forseta fyrir að hafa sagt okkur að fundurinn standi ekki lengur en til miðnættis. Það er gott því að þá getum við gert ráðstafanir þó að kvöldið sé nú svo sem búið. Það er alveg ljóst að hæstv. forseti Einar Kristinn Guðfinnsson tók ekki tillit til þess, eins og hér kom fram, að búið var að gera ákveðnar ráðstafanir til að sinna öðrum skyldum sem þingmenn þurfa að gegna. Það er auðvitað ámælisvert að hæstv. forseti taki ekki tillit til þess. Þingflokkar eru mismannmargir og oft eru ekki margir um að sinna þeim skyldum sem okkur ber að gegna. Og í þessu tilfelli er það nú svo, því miður. Við stöndum frammi fyrir því að hér er forseti að hafa í raun af okkur önnur þingstörf með því að neita okkur um að láta dagskrána standa skemur en til miðnættis.