144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er kannski betra að gera ekki neitt en að gera tóma vitleysu. Ég held að það sé betra að við eyðum svolítið kröftum í það og það sé mikilvægt hlutverk ef við getum stoppað það ofbeldi sem hér hefur verið í gangi í sambandi við rammaáætlunina og þá vondu afgreiðslu sem er verið að reyna að berja í gegn.

Hæstv. forseti. Við höfum mikið rætt að hér þurfi að vera önnur mál á dagskrá. Mikið hefur náttúrlega verið rætt um kjarasamningana og að fá einhverjar upplýsingar um það hvað hæstv. forsætisráðherra ætlar að gera og hæstv. fjármálaráðherra. Það er dapurlegt að hlusta á þá þegar við erum komin með 45 daga verkfall, 46 daga í dag og aðrir á leiðinni í verkfall eins og hjúkrunarfræðingar. Á sama tíma segja menn bara: Ja, við bíðum eftir því að almenni markaðurinn semji. Svo þegar er gengið á þá, hvort þeir ætli að gera eitthvað: Jú, við erum búnir að bjóðast til að gera eitthvað ef einhver biður um eitthvað. Þetta er stjórnin á Íslandi í dag. Kannski er það besta sem þessi ríkisstjórn gerir að gera ekki neitt. Við getum því haldið umræðunni hérna áfram svo að hún geti haldið áfram (Forseti hringir.) iðjuleysi sínu á meðan.